TOPPFÓLK
Erla Björk Baldursdóttir
Erla Björk Baldursdóttir útskrifaðist sem fata- og sníðahönnuður frá London College of Fashion sumarið 2010. Áður stundaði hún nám í hönnun og handíðum við Iðnskólann í Reykjavík og Fjölbrautarskólann í Breiðholti.
Erla Björk er nú að vinna að hönnun fyrir Hlýund sem sérhæfir sig í hlýjum hversdagslegum grunnfatnaði fyrir konur. Einnig er hún að vinna að sinni fyrstu sjálfstæðu línu sem brátt mun líta dagsins ljós.
Guðni Rúnar Jónasson
Guðni er annar tveggja höfunda heimasíðunnar Snoop-around.com eða Snuðru, sem heimsækir heimili, vinnustaði og vinnustofur skapandi fólks í þeim tilgangi að veita sýn inn í líf þess í myndum og viðtölum.
Lúka Art & Design
Brynhildur Þórðardóttir er hönnuður og eigandi Lúka Art & Design. Hún er menntaður textíl- og fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands en fór til frekara náms í Bretlandi og sérhæfði sig í tæknilegum textílum og atgervisfatnaði. Brynhildur hefur unnið sem sjálfstætt starfandi hönnuður í tæplega fimm ár og meðal annars fyrir Zo-On og Varma. Brynhildur hefur jafnframt unnið fyrir Þjóðleikhúsið að búningum í leikritinu Bakkynjum og tekið að sér búningavinnu vegna tveggja verkefna, Kurteist fólk og Borgríki, fyrir Poppoli kvikmyndagerð. Í leikritinu Kurteisu fólki sá Brynhildur alfarið um búningana og verður kvikmyndin frumsýnd í lok árs 2010. Sérstakur ,,trailer” var gerður til að fjármagna kvikmyndina Borgríki og hannaði Brynhildur búningana fyrir hann.
Brynhildur var einn af eigendum GalleríBox á Akureyri ásamt þremur öðrum myndlistarkonum og var í þeim félagsskap um tveggja ára skeið. Lúka Art & Design var fyrst með vinnustofu í Hönnunarsafni Íslands að Lyngási í Garðabæ en flutti inn í Toppstöðina í byrjun september 2010. Brynhildur hefur ástríðu fyrir búningum og fatnaði.
www.lukaartdesign.is, luka.artdesign@gmail.com
Puzzled by Iceland
Puzzled by Iceland hannar og framleiðir minjagripi fyrir ferðamenn í formi púsluspils í mismunandi stærðum með fallegum ljósmyndum af íslenskum náttúruperlum og dýralífi. Ofan í hverri öskju er blað með skemmtilegum fróðleik um staðinn eða dýrið sem prýðir púslið og aftan á blaðinu er myndin sjálf til að púsla eftir.
Puzzled by Iceland var stofnað í ágúst 2010 af tveimur viðskiptafræðingum, þeim Guðrúnu Heimisdóttur og Þóru Eggertsdóttur. Sala á púsluspilunum hófst hérlendis í nóvember í fyrra og er stefnan sett út fyrir landsteinana innan tíðar og hvort sem það verður Puzzled by Canada, Puzzled by Japan eða eitthvað annað á eftir að ráðast.
Samtök um hreinorkubíla
Samtökin voru formlega stofnuð í Toppstöðinni í Elliðarárdal þann 10. mars 2010 og er ætlað að vera regnhlífarsamtök áhuga- og atvinnumanna um bíla sem nota aðra orkugjafa en bensín og díselolíu (sjá nánar á www.hreinorkubilar.is).
Ari Arnórsson er formaður samtakanna. Hann hefur víða komið við eftir stúdentsprófið, innan skóla og utan, þó oftast við annað hvort upplýsingaöflun og -miðlun, eða bíla, og helst sameinað það allt saman. Í Toppstöðinni starfar Ari að farartækjahönnun fyrir ferðaþjónustu og björgun, í fyrirtæki sínu Jökum, starf sem hófst fyrir einum og hálfum áratug meðfram vinnu í ferðaþjónustu.
Ari er að mestu autodidakt eða sjálflærður.
Gunnar Sigfússon
Gunnar er ritari Samtaka um hreinorkubíla. Hann er með Cand-Ing próf í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskólanum í München og hefur unnið við þróun rafmagnsstýringa og mælingabúnaðar fyrir rafmótora frá 1996 – 2000 meðal annars fyrir Háskóla þýska hersins og fyrir bílaframleiðandann MAN. Á árunum 2000 – 2010 starfaði Gunnar einnig við hugbúnaðargerð hjá ýmsum fyrirtækjum, m.a. Landsbankanum og Tölvumiðlun. Frá miðju ári 2010 hefur Gunnar unnið að þróun nýrrar tækni í samstarfi við þýska fyrirtækið ATPE varðandi alhliða stýringu á rafmagnsdrifum fyrir ýmsan iðnað, m.a. bílaiðnað.
Gunnar hefur aðstöðu í Toppstöðinni og vinnur að þróun hugbúnaðar og hermilíkana á stýringum fyrir rafmagnsdrif. Auk þess stefnir hann á að koma upp aðstöðu til að prófa fullbúin rafmagnsdrif fyrir smábíla í Toppstöðinni árið 2011 í samvinnu við aðila innan og utan Toppstöðvarinnar.
Verkstæðið
Hrafn Karlsson er vélvirkjameistari að mennt. Hér á árum áður vann hann á olíuverkstæði á Selfossi. Hann var verkstjóri hjá vélsmiðjunni Magna í Vestmannaeyjum. Hrafn hefur hannað og smíðað fjölda tækja sem notuð eru í sjávarútvegi. Hann er einn af meisturum verkstæðisins í Toppstöðinni.