UM TOPPSTÖÐINA

By admin, 14/10/2009 23:23

Toppstöðin er frumkvöðlasetur sem rekið er af áhugasamtökunum Toppstöðinni í gömlu varaaflsstöðinni við Rafstöðvarveg 4 í Elliðarárdal. Í Toppstöðinni hafa um 20 frumkvöðlar á sviði vöruhönnunar og vöruframleiðslu aðsetur sitt og vinna að fjölbreyttum nýsköpunarverkefnum á sviði leikfangagerðar, bílahönnunar, lampa- og húsgagnahönnunar svo fátt eitt sé talið. Fyrirtækin í stöðinni hafa á að skipa vöruhönnuðum, arkitektum, grafískum hönnuðum, viðskipta- og markaðsfræðingum, renni –og blikksmiðum. Innan stöðvarinnar er málmsmíðaverkstæði sem ætlað er til smíða og þróun frumgerða.

Toppstöðin er hugsuð sem stuðningsnet fyrir sprotafyrirtæki á sviði vöruframleiðslu og er markmið stöðvarinnar að stuðla að aukinni samvinnu hönnunar- og iðngreina með það fyrir augum að auka vöruframleiðslu innanlands, með tilheyrandi aukningu útflutningstekna, fjölgun starfa og aukinni sjálfbærni innanlands.

Auk þess að virka sem stuðningsnet fyrir fyrirtæki á frumskeiði vinnur stöðin að vitundarvakningu og fræðslu um mikilvægi hönnunar- og iðngreina í íslensku samfélagi. Þetta er gert með opinni dagskrá fyrirlestra og sýninga auk samvinnu með Reykjavíkurborg, menntastofnunum, frumkvöðlasetrum og fyrirtækjum.

Húsið er opið alla virka daga frá 9:00 til 13:00

Comments are closed

Panorama Theme by Themocracy