Fræðsla fyrir 6. bekk grunnskóla

By admin, 18/01/2011 16:42

Vöruþróunarferlið – frá hugmynd til vöru

Fræðsluverkefni Toppstöðvarinnar vor 2011

fyrir nemendur 6. bekkjar grunnskóla

 

Fræðsla

Toppstöðin í samráði við Menntasvið Reykjavíkurborgar býður nemendum 6. bekkjar grunnskólanna í fræðslustund um vöruþróunarferlið. Tilgangur fræðslustundarinnar er að veita nemendum innsýn í það ferli sem á sér stað þegar nytjahlutur verður til, allt frá hugmynd að tilbúinni vöru í verslun, og skapa nemendum hvatningu með beinum samskiptum við starfandi fagfólk á sviði vöruhönnunar og auka um leið snertiflöt nemenda við vaxtarbrodda í íslensku atvinnulífi.

Nemendur fara  í skoðunarferð um húsið og fyrirtæki og frumkvöðlar stöðvarinnar eru kynnt. Að því loknu er boðið upp á fyrirlestur vöruhönnuðar þar sem ferli raunverulegrar vöru er rakið frá fyrstu hugmyndum, yfir í skissur, þá smíði frumgerðar og loks í framleiðslu endanlegrar vöru með umbúðum og kynningargögnum.

Umsjónarmenn verkefnisins eru: Ari Arnórsson frumkvöðull og farartækjahönnuður, sem sækir hópana í rútu úr eigin smiðju og kynnir fyrir þeim frumkvöðlaverkefnið Toppstöðina, og vöruhönnuðurnir Páll Einarsson og Stefán Pétur Sólveigarson, sem báðir hafa fjölbreytta reynslu af vöruhönnun og -þróun og hafa starfað sem stundakennarar við hönnunardeild Listaháskóla Íslands. Þeir munu kynna vöruþróunarferlið fyrir nemendum.

Fræðslustundin verður alla miðvikudaga í Toppstöðinni fram í apríl. Áhugi fyrir verkefninu var mikill og varð fullbókað í allar stundirnar á einum degi.

Comments are closed

Panorama Theme by Themocracy